Hvernig gerum við betra kaffi?
Undirstaðan af góðum kaffibolla er að vinna með ferska og góða vöru. En það skiptir líka miklu máli hvernig við förum að við kaffilögunina.
Hér á þessari síðu ætlum við hjá Kaffistofunni að safna saman heilræðum og trixum sem lúta að mismunandi uppáhellingaraðferðum og almennt hvernig við gerum gott kaffi betra. Hvað ber að varast og hvað hefur reynslan kennt okkur.
Við viljum hvetja alla til að prófa sig áfram með uppáhellinguna og vera óhrædd að reyna nýja hluti. Þannig njótum við kaffisins til fulls og gerum í leiðinni lífið skemmtilegra.
Skál!
Kaffitrix
V60/Chemex
CleverDripper
Aeropress
Pressukanna
Mokkakanna
Kaffitrix
- Notið alltaf nýristað kaffi. Brennsludagur ætti alltaf að vera sýnilegur á pakkningunni og kaffi með Best fyrir dagsetningu marga mánuði fram í tímann ætti að forðast.
- Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir nýmalað. Fjárfestu í kaffikvörn ef þú átt ekki slíka. Munt ekki sjá eftir því.
- Notaðu vigt. Bæði til að vigta kaffið og vatnið. Það tryggir að þú færð fullkominn bolla í hvert skipti.
- Ef notaður er pappírsfilter þá er mikilvægt að skola hann með heitu vatni áður en hellt er uppá. Það fjarlægir pappírsbragðið.
- Kjörhitastig á vatninu við uppáhellingu er 85-92°C
- Bleytið upp í kaffinu með hluta af vatninu og leyfið því að standa í um 30 sekúndur. Þetta er kallað að fá kaffið til að blómstra. Þá losnar um CO2 sem er í kaffinu eftir brennsluna og uppáhellingin verður bragðbetri.
V60/Chemex
- Mikilvægt er að skola filterinn með heitu vatni áður en hellt er uppá. Það fjarlægir pappírsbragðið.
- Notið nýmalað kaffi – milligróft. Gullna reglan er 1:16 eða t.d. 31 gr kaffi á móti 500ml af vatni.
- Kjörhitastig á vatninu er um 92°C – Hellið u.þ.b. 20% af vatninu í trektina og gætið að því að bleyta allt kaffið.
- Leyfið því að standa í um 30 sekúndur. Þetta er kallað að fá kaffið til að blómstra. Þá losnar um CO2 sem er í kaffinu eftir brennsluna.
- Hellið afgangnum af vatninu rólega yfir kaffið og leyfið því að klárast áður en kaffipokinn er fjarlægður.
- Hellið í bolla og njótið.
CleverDripper
- Brjótið uppá filterinn og setjið í trektina. Skolið með heitu vatni.
- Vigtið kaffið í trektina. Hlutfallið 1:16 er ágæt byrjun. Til dæmis fyrir 300ml af kaffi þá notum við 19gr milligróft kaffi.
- Hellið 90°c heitu vatni með hringlaga hreyfingu í trektina. Gætið þess að væta kaffið vel. Best er að nota vigt til að mæla magnið af vatninu.
- Brjótið “skorpuna” með skeið og hrærið rólega 2-3 hringi. Látið svo standa í 2 mínútur.
- Setjið trektina á bolla eða annað ílát sem er nógu stórt fyrir kaffið og njótið þess að heyra ljúffengt kaffið streyma úr clever dripper.
Aeropress
- Setjið filter í botninn og skolið með heitu vatni.
- Festið botninn á hólkinn. Setjið milligróft nýmalað kaffi í hólkinn. 20gr er ágæt byrjun.
- Hellið 85°c heitu vatni í hólkinn hálfa leið og látið standa í 30 sekúndur. Gott að hræra rólega 2-3 hringi og tylla bullunni í hólkinn til að hindra að kaffið sleppi burt.
- Hellið vatni upp að efri brún og komið bullunni fyrir aftur.
- Pressið rólega og njótið þess að heyra ljúffengt kaffið streyma í bollann.
Pressukanna
- Notið nýmalað kaffi. Frekar grófmalað. 65gr pr 1 líter.
- Hitið vatn að suðu og látið standa í 2 mínútur. Þá hefur það náð kjörhitastigi sem er um 92°C.
- Hellið vatninu rólega í könnuna og gætið að bleyta allt kaffið. Setjið bulluna í og látið standa í 3-4 mínútur.
- Þrýstið bullunni rólega niður.
- Hellið í bolla og njótið.
Mokkakanna
- Notið nýmalað kaffi. Frekar fínmalað. Gullna reglan er 1:10 eða t.d. 30gr kaffi á móti 300ml af vatni.
- Best er að nota ekki ískalt vatn heldur að forhita vatnið aðeins áður en það fer í botninn á könnunni. Passið að setja ekki meira vatn en að það rétt nái að ventlinum á hliðinni.
- Setjið könnuna saman og passið að skrúfa þéttingsfast.
- Setjið könnuna á eldavél á 3/4 styrk. Takið könnuna af hellunni þegar efri hlutinn er að fyllast. Passið að láta ekki frussast of mikið úr stútnum. Frussinu fylgir beiskt og vont bragð.
- Hellið í bolla og njótið.