Um Kaffistofuna
Í mörg ár flutti ég inn kaffi frá ýmsum ræktunarsvæðum og ristaði við frumstæðar aðstæður í garðinum hjá mér eða við sumarbústaðinn. Mér fannst allt sem viðkom þessum drykk heillandi og gerði mér far um að smakka ólíkar tegundir kaffis. Bæði hvað varðar uppruna en ekki síður mismunandi uppáhellingaraðferðir.
Um tíma bjó ég erlendis og var svo lánsamur að vera í borg sem var uppfull af kaffihúsum og spennandi nýjungum í kaffi og kaffigerð. Ég fór með tímanum að kunna betur að meta það sem kallað er Speciality Coffee, eða handverkskaffi eins og ég kýs að kalla það.
Mér fannst þó helsti gallinn við Speciality Coffee hreifinguna vera allt prjálið og merkilegheitin sem stundum virtust fylgja. Mörgum líður einkennilega í kaffismökkun til að mynda þar sem rætt er um bragð og blæbrigði kaffisins. Lýsingarorðin eru framandi og venjulegum leikmanni getur fundist hann illa eiga heima í þessu umhverfi.
Með árunum hef ég aukið stöðugt við þekkingu og reynslu á kaffi. Kaffibrennslu og hinum fjölbreytilegu aðferðum við að laga gott kaffi.
Ég hef þó sterka skoðun á því að handverkskaffi eigi sér miklu breiðari skírskotun og það þurfi að gera þessa vöru aðgengilegri fyrir hinn stóra hóp venjulegra kaffiunnanda, þó þeir geri kannski ekki greinarmun á sólberjum, bláberjum eða skógarberjum við kaffismökkun.
Kaffistofan er mín leið til þess að breiða út fagnaðarerindið og gera gott handverkskaffi aðgengilegra fyrir Íslendinga. Það er mikið framboð af kaffi á Íslandi og margt af því mjög gott, hins vegar verður það að viðurkennast að sorglega margar kaffibaunir hefðu aldrei átt að komast alla leið í bolla. Því viljum við breyta með Kaffistofunni.
Meira og betra kaffi, það er markmiðið